17.03.2014
Marina

Stærsta verkefni formennskuáætlunar Íslands í norrænu ráðherranefndinni heitir NordBio og var kynnt þann 5. Febrúar síðastliðinn. Markmið verkefnisins er að draga úr sóun og auka sjálfbæra nýtingu lífauðlinda á Norðurlöndunum. Undir NordBio verkefninu eru fimm undirverkefni og ber eitt þeirra heitið Marina.

Hér má sjá kynningu NordBio verkefnisins og undirverkefna.

Markmið Marina verkefnisins er að minnka útblástur frá skipaflotanum með því að auka hlut vistvæns eldsneytis. Til að ná settum markmiðum miðar verkefnið að því að skapa samskiptanet milli allra lykilaðila á Norðurlöndunum. Samskiptanetinu er ætlað að koma með tillögur að sameiginlegri stefnumótun fyrir Norðurlöndin og ráðamenn þeirra um hvernig megi auka hlut vistvænna samganga á sjó og minnka þar með koltvísýringsútblástur. Stefnt er að því að stefnumótunin muni setja markmið fyrir 2025 auk þess sem litið verður til langtímamarkmiða (t.d. 2050). Útkoma verkefnisins verður stefnumótandi plagg og mun verkefnið halda ráðstefnu til að miðla niðurstöðu verkefnisins. Vonir eru auk þess bundnar við að samskiptanetið muni lifa lengur en verkefnið sjálft og verða sjálfstæð eining.