NEEDS (New Energy Externalities, Developments for Sustainability)

Verkefnið er framhald evrópusamstarfsverkefna í 4. og 5. rammaáætlun ESB sem nefndust Extern-E. Öll verkefnin fjalla um verðlagningu á orku í samræmi við vinnslu og flutningskostnað að meðteknum úthrifum (þ.e. umhverfis og heilsufarskostnaði).

NEEDS fjallar fyrst og fremst um endurnýjanlega og umhverfisvæna orkugjafa og miðar að því að bera saman kostnað við nýtingu þeirra. Fyrsti hluti NEEDS er tileinkaður lífsferilgreiningu á mismunandi orkutækni og er þá sólarorka, vindur, sjávarorka og jarðhiti ásamt olíu, kolum og kjarnorku tekinn með í myndina. Tekin er saman efnis- og orkunotkun við tiltekna tækni á byggingarstigi, á notkunartíma og eftir urðun tækjanna eða endurnýtingu. Síðan er spáð fyrir um þróun tækninnar og áætlaður umhverfiskostnaður þeirra breytinga fram til ársins 2050. Byggingarkostnaður og rekstrarkostnaður er síðan færður til bókar og þannig fæst samanburðarhæft mat á raunkostnaði þeirrar orkutækni sem fyrirsjáanlegt er að hægt verði að velja úr á hverjum stað, miðað við aðstæður í hverju héraði. Innan NEEDS eru einnig vinnuhlutar sem taka til skoðunar hvaða umhverfisáhrif er vert að verðmeta og þá þær aðferðir sem hægt er að beita.

Íslensk NýOrka sinnir þeim hluta er lýtur að notkun vetnis sem yrði unnið með rafgreiningu og síðar háhitarafgreiningu undir þrýstingi og nýtingu jarðvarma til þess.

Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á www.needs-project.org.