Í lok mars var tilkynnt um úthlutun úr Loftslagssjóði 2021 og hlaut verkefni sem Íslensk NýOrka stýrir 10 milljóna króna styrk fyrir verkefnið Skrokk- og kerfishönnun á fjölnota raftvíbytnu. Samstarfsaðilar að verkefninu eru Arctic Clean Invest ehf., Mannvit, Faxaflóahafnir og Orka náttúrunnar.
Verkefnið miðar að því að forhanna raftvíbytnu og greina lykilnotkunarmöguleika hennar, með áherslu á almenningssamgöngur og haftengda ferðaþjónustu. Markmiðið er að hanna skrokk og rafkerfi, þ.m.t. lykil rafhlutir rafgeymar, mótoruar, o.s.frv, sem hefur þann eiginleika að hægt er að byggja mismunandi lausnir, yfirbyggingar, ofaná skrokkinn eftir notkun. Er þar um að ræða svokallaða „hjólabrettalausn“ (e. skateboard design) sem hægt er að skala upp eða niður, þar sem yfirbyggingin á skrokknum og lengd hans getur verið fjölbreytt eftir þörfum viðskiptavinar hverju sinni.
Verkefnið byggir á þekkingu sem varð til á Íslandi með rafvæðingu hvalaskoðunarbáta Norðursiglingar og var þróuð enn frekar í Noregi á undanförnum árum. Þróun á rafkerfum, rafgeymum og mótorum hefur verið afar hröð á undanförnum árum og opnað möguleika á að hafa slíka tvíbytnu losunarfrían (hingað til hafa nánast öll kerfi í slíka báta verið tengiltvinn (rafmagn-olía)). Einnig hefur verið ör þróun í byggingarefnum skrokka sem hefur opnað möguleika á að nota vistvænna efni en gengur og gerist sem einnig er talsvert léttara en fyrri gerðir. Samspil allra þessara þátta opnar fyrir ný tækifæri í hönnun á slíkum skrokk, sem síðan getur verið fjölnota t.d. til almenningssamgangna, sem ferja, skemmtibátur, hvalaskoðun, þjónustubátur fyrir fiskeldi, o.s.frv. Notkunarmöguleikar eru fjölbreyttir og því geta slíkir bátar haft umtalsverð áhrif á losun frá haftengdri starfsemi.
Á vefsíðu Rannís má nálgast upplýsingar um úthlutunina í heild sinni.