Skip to main content

Hafið Öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins

Hafið Öndvegissetur starfaði á árunum 2014-2021 að margvíslegum verkefnum sem tengdust verndunarsjónarmiðum og sjálfbærri umgengni um hafið. Starfsemi Hafsins átti rætur að rekja til samstarfs fyrirtækja sem vilja þróa og nýta græna tækni, til verndar hafinu. Markmið félagsins var að skapa samstarfsgrundvöll fyrir fyrirtæki, opinbera aðila og rannsóknarstofnanir til þróunar á tækni, löggjöf og hverju því sem stuðlar að verndun og sjálfbærri umgengni um hafið.

Undir tryggri forystu framkvæmdastjórans, Sigríðar Rögnu Sverrisdóttur og sýn sex manna stjórnar, vann Hafið Öndvegissetur ötullega að ýmsum verkefnum sem tengdust orkuskiptum, mengunareftirliti á sjó, stafrænum lausnum, rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og svo mætti lengi telja.

Vegvísir Hafsins um vistvænan sjávarútveg og haftengda starfsemi á Íslandi kom til að mynda út sumarið 2019 en hann var afrakstur samstarfs og ekki síður samtals við fjölmarga aðila er koma að haftengdri starfsemi, bæði á sjó og landi, úr atvinnulífinu sem og frá hinu opinbera.

Á aðalfundi 2021 var tillaga samþykkt um slit félagsins. Stjórn taldi ótal margt hafa óunnist í starfsemi Hafsins en tími annarra frambærilegra aðila á vettvangi grænna og sjálfbærra lausna væri runninn upp. Við stofnun hafsins árið 2014 var staðan í umhverfis- og loftlagsmálum allt önnur en nú, umræða í samfélaginu miklu minni og meira þurfti til að koma þessum málaflokkum á dagskrá. Ákveðið var að styðja við Hafið með hluta fjárveitingar frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til loftlagsmála og var það upphafið að farsælu samstarfi. Hafið Öndvegissetur hefur skapað margs kyns afurðir, sem allar hafa borist með skilum, en ekki síður hefur það staðið fyrir samtali og samskiptum fjölbreyttra aðila í haftengdri starfsemi, sem hefur átt ríkan þátt í mikilvægum framförum. Nú er staðan á þessum sviðum af öðrum toga, víðtæk umræða á sér stað um þá þætti sem Hafið Öndvegissetur hefur beitt sér fyrir og margir þeirra eru komnir í mótaðan farveg.

Tekin hefur verið saman saga Hafsins Öndvegisseturs, sem reifar hin ýmsu verkefni og ávinning sem hlaust af starfi Hafsins og samstarfi við hagsmunaaðila. Hana má skyggnast í hér fyrir neðan eða hlaða niður. Hafið hefur skilað góðu verki og ber öllum sem að starfi þess hafa komið, beint og óbeint, bestu þakkir fyrir samstarfið.